Laugardagur, 9. janúar 2010
Frost og snjór hamlar íþróttaiðkun!
Það er alveg hrikalegt að heyra að það þurfi að leggja niður æfingar á gervigrasinu okkar vegna þess að hitalagnirnar ná ekki að bræða snjóinn. Frostið er svo mikið að það er beinlínis hættulegt að hleypa börnunum okkar út á völlinn.
Æfingar í dag hafa breyst mikið frá því að ég var sjálfur að æfa fótbolta í gamla daga, þá var alltaf spilað inni á annaðhvort dúk eða parketi, í dag eru 90% æfingatíma barna og unglinga hjá Aftureldinu á gervigrasi þó með undantekningu allra yngstu flokkanna. Ég er sannfærður um að það eru alltaf afföll á iðkendum vegna þess einfaldlega að þeir vilja ekki þurfa að sprikla úti í frostinu. Og hvað verður um þessa krakka sem annaðhvort hætta í íþróttum vegna aðstöðuleysis?
Það er löngu vitað að besta forvörnin sem hægt er að hugsa sér er að börnin okkar stundi íþróttir eins lengi og þau geta og hafa áhuga til. Það hjálpar ekki að þurfa að stunda sína íþrótt í brjálaðri norðanátt og gaddi.
Það er mín skoðun að okkur Mosfellinga vantar yfirbyggðan íþróttavöll. Möguleikar Mosfellinga með slíku húsi eru fjölþættir, ekki bara það að allir iðkendur geti stundað sínar æfingar inni á veturna , heldur bíður svoleiðis hús uppá endalausa möguleika á hinum ýmsu atburðum t.d. ráðstefnu - og tónleikahaldi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.