Björt framtíð í Mosfellsbæ

mosfellingur69Grein eftir mig sem birtist í Mosfellingi 15. janúar. 

Þegar við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ í febrúar 2006 þá höfðum við lengi horft til bæjarins með þann draum í hjarta að einn daginn skyldum við festa hér rætur. Þetta byrjaði allt saman árið 1997 þegar ég hóf að leika með Handknattleiksfélagi Mosfellsbæjar (HM). Árið 2000 gengum við hjónin í það heilaga og það kom ekkert annað til greina en að gifta sig í fallegustu kirkju landsins, Lágafellskirkju. Ári síðar var dóttir okkar skírð í sömu kirkju. Eftir það var ekki aftur snúið. 

Komum Mosfellsbæ á kortið

Það hefur mikið áunnist í bæjarfélaginu okkar á undanförnum árum og þegar allt lék í lyndi á Íslandi þá fórum við ekki varhluta af því. Mikill uppgangur var og heilu hverfin risu í túnfætinum. Frá því að síðast var kosið í bænum hefur íbúafjöldi aukist um rúm 15%. Næstu fjögur ár verða að öllum líkindum erfið og þurfum við á öllum okkar kröftum að halda til að bæta ekki fleiri álögum á þegna þessa bæjarfélags. Það hafa hinsvegar mörg önnur bæjarfélög þurft að gera og munu þurfa að gera á næstu árum.  En hvað getum við gert til þess að fá tekjur í bæjarfélagið án þess að það komi allt frá íbúunum sjálfum? Jú, við þurfum að gera bæinn okkar áhugaverðan fyrir fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir. Það þarf að fá fólk til að heimsækja okkur og nýta sér þá þjónustu og verslun sem hér er í boði. Góðar fréttir bárust í miðri kreppu þegar gengið var frá samningi um byggingu einkasjúkrahúss og hótels á Tungumelum. Með þessum tímamótasamningi fylgja ótrúlega mörg tækifæri fyrir okkur Mosfellinga. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda rétt á spilunum og tryggja okkur í sessi sem áhugaverður og eftirsóknarverður áningarstaður.

Brettum upp ermar

Ég er tilbúinn til að leggja mitt af mörkum til að gera bæinn okkar að enn betri bæ og vinna ötullega fyrir Mosfellinga. Hvort sem það er í íþrótta- og æskulýðsmálum, atvinnu, umhverfis eða skólamálum að ég tali nú ekki um skipulagsmálin. Þrátt fyrir að vera eitt best rekna sveitarfélagið á landinu þá er alltaf tækifæri til að gera betur. Brettum upp ermar og byrjum að vinna til framtíðar fyrir okkur öll. Ég óska eftir stuðningi þínum í 4. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna sem fram fer þann 6. febrúar.  

Í tilefni framboðsins hef ég opnað bloggsíðu, www.runarbragi.blog.is og þar verður hægt að fylgjast með skrifum mínum og áherslumálum. 

Rúnar Bragi Guðlaugsson 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband